Karlakórinn
Karlakórinn

Aðsent

Andlát – Magnús Þór Vilbergsson
Miðvikudagur 21. júní 2023 kl. 11:20

Andlát – Magnús Þór Vilbergsson

Magnús Þór Vilbergsson
F.19. janúar 1964. D. 17. júní 2023.
Útför frá Keflavíkurkirkju föstudaginn 23. júní kl.12:00.

Að kveðjustund nú komið er elsku vinurinn góði.
Þinn erfiða sjúkdóm þú barðist við í þínu eigin hljóði.
En húmorinn og hláturinn fleytti þér áfram lengi.
Naut ég þess tíma við hlátur og glens mikið lengur en ég hélt ég fengi.
En nú ertu laus þrautum frá og flogið burt á framandi strönd þar sjáumst við seinna að nýju.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

(A.B.Þ.)

Elsku Maggi ég vil þakka þér með kærleika og hlýju að hafa frá þinni fyrstu stund fylgt mér í gegnum lífið. 

Þú greindist með þennan illvíga sjúkdóm MND fyrir nærri níu árum. Þú tókst á við þetta verkefni með húmorinn að vopni. Þú dvaldir á deild D á sjúkrahúsinu í Keflavík þegar þú dvaldir ekki heima. Starfsfólk á deildinni hugsaði mjög vel um þig og kölluðu þig prinsinn sinn. Því ber að þakka og ég sendi þeim mínar bestu þakkir með hlýhug, þau voru svo ómetanlega góð við þig og okkur sem í kringum þig voru. Þú varst heima þegar þú veiktist af lungnabólgu í umsjá Hörpu þinnar, hún hefur staðið eins og klettur þér við hlið. Með fullri vinnu sá hún um þig á meðan þú veiktist meira og meira.

Þú kallaðir mig alltaf stóru systur og ég þig litla bróður enda ólumst við upp saman. Þær stundir sem ég hef átt með þér í þínum veikindum í gegnum árin á sjúkrahúsinu eru mér ómetanlegar, við hlógum og göntuðumst alltaf þegar við hittumst og ræddum mikið saman. Það var ómetanlegt þegar þú fékkst tölvuna sem þú gast stjórnað með augunum og talað fyrir þig, þegar þú gast ekki tjáð þig lengur. 

Þú sem barst þinn harm í hljóði
hræddist ekki dauðans mátt.
Er falla tár, með fögru ljóði
ég fæ að kveðja þig í sátt. 

(Kristján Hreinsson)

Stundir okkar saman á spítalanum hafa verið mér mjög dýrmætar og þær geymi ég í hjarta mínu til æviloka. Þú þurfir alltaf að fá fréttir af öllum í fjölskyldunni, vildir vita hvernig heilsan væri hjá öðrum. Hafðir miklar áhyggjur af Hörpu þinni og heilsu hennar því hún var að glíma við heilsuleysi og þér fannst hún vinna allt of mikið. Þegar mamma þín fór í hjartaaðgerð vildir þú vita allt um heilsu hennar og hafðir áhyggjur af henni. Það mátti enginn fá kvef í nös, þá var spurt um það. Og alltaf vildir þú vita hvernig mér liði. Þegar ég sagði að mér liði vel, þá fékkst þú hláturskast. Þegar ég svo spurði þig um líðan, þá var hún alltaf góð, já einmitt. Sama hversu veikur þú varst þá varstu alltaf með góða heilsu. Elsku kallinn minn þú hafir áhyggjur af öllum í fjölskyldunni nema sjálfum þér. Og varst með óþreytandi áhuga á öllum í fjölskyldunni og spurðir endalaust um alla. Það var gaman að heimsækja þig við hlógum svo mikið. Við rifjuðum upp gamla tíma þegar við vorum í sveitinni á Fitjum, þá laumaðist ég inn til þín á kvöldin, því stelpurnar voru sér og strákarnir í öðrum herbergjum. Þú varst svo lítill og ég lofaði þér að ég myndi koma inn til þín þegar starfsmenn voru búnir að koma okkur í rúmið og svæfa þig. Ég strauk þér um augun og niður með eyranu og strauk þér um kinn og raulaði vögguvísur þar til þú sofnaðir. En þú varst líka bjargvættur minn við matarborðið, ég var mjög matvönd og við fengum ekki að fara frá borði fyrr en við höfum lokið af diskum. Þannig þú kláraði þitt og skiptir síða um disk við mig. Við eyddum miklum tíma í að skipuleggja strok. Við söfnuðu kaffi brauði og skipulögðum en ekki var mikið úr framkvæmdinni. Ég kom með gamlar myndir úr sveitinni, Suðurgötu og Smáratúni og hafðir þú mikla gleði af því. Við rifjuðum líka upp að þegar eitthvað brotnaði eða við gerum eitthvað af okkur þá kennir þú mér alltaf um. Þú varst alltaf svo ljúft barn og meiri fyrirferð í mér, því trúðu auðvitað allir þér með þitt saklausa blik og blíðu augu. Þessum minningum hafðir þú gaman af og hlógum við mikið, enda þótti þér stóra systir geta tekið þessu fyrir litla bróður. Enda var hún vön að vera skömmuð annað en litla ljósið þú. Ég er full þakklætis að hafa átt þessar góðu stundir með þér. Síðustu dagana með þér varstu mjög þreyttur enda með lungnabólgu en baðst samt um sögur og brandara. Að sjálfsögðu brandarakallinn minn og þú hlóst mikið jafnvel þótt þú værir máttlítill. Þú kvaddir þennan heim um kl. 22:00 þann 17. júní á afmælisdegi föður þíns.

Hvíldu í friði elsku Maggi minn, minning um drenginn góða lifir í hjörtum okkar ástvina þinna. Ég veit að það verður tekið vel á móti þér á nýjum dvalarstað, nú ertu frjáls í faðmi kærleika og getur farið þína ferðir að vild. Og kannski uppfyllir þú drauminn þinn að verða bóndi í Sumarlandinu. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Hörpu, Haralds, Eyrúnar og Mörtu, tengdabarna, barnabarna, móður, föður, tengdaforeldra, systkina og allra náinna aðstandenda og fjölskyldur þeirra. 

Ég sendi þér kæra kveðju
nú kominn er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir
ég bið þig að sofa rótt.

Þó sviði í sorg og hjarta
Þá sælt er er að vita að því
Þú laus ert úr veikinda viðjum
Þín veröld er björt á ný. 

Ég þakka þau ár sem ég átti
Þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margt að minnast,
svo margt sem um huginn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð. 

(Þórunn Sigurðardóttir)

Farðu í friði vinurinn góði, ég hitti þig þegar minn tími kemur. Megi ást og kærleikur fylgja þér á meðan. 

Þín stóra systir,
Anna Björg Þormóðsdóttir.